fimmtudagur, júní 30, 2005

Fann nýtt blogg í gær - drivethehrive. Hafði ekki tíma til að skoða það en er afar kát yfir því að viðkomandi persóna skuli blogga og mun drekka í mig hvert orð við síðara tækifæri. Jibbí!
Hvað er annars málið með að fá góða afgreiðslu? Það er eitthvað sem ég lendi ekki of oft í. Hef þó tekið eftir því að ef svo vill til að ég er íklædd dragt, með hárið sett upp í hnút og gjarnan með gleraugun á mér virðist sem afgreiðslufólk sé meira smér í höndum mér en ella. Ég hef þó enn ekki gengið svo langt að dulbúa mig í þennan galla til þess eins að fara að versla.
Í fyrradag fór ég í Húsasmiðjuna á Smáratorgi. Rambaði þar ráðvillt um uns ég fann einkennisklædda konu sem var fús til að svara öllum mínum spurningum og greiða úr öllum mínum vandamálum. Hún var sérdeilis alþýðleg í viðmóti og frjálsleg í fasi, bara með sítt hár í lauslegu tagli, lítt eða ómáluð og frekar afslöppuð. Þori að veðja að eftir vinnu fer hún beint í þægilegustu og eflaust um leið ódýrustu joggarana sem fást í Hagkaupi við hliðina. Hún brosti líka, svona tvisvar, en ekki svona sölugrettu eins og margir í sama bransa, heldur bara einlægu ánægjubrosi af því að henni tókst að fiska nytsamlegar upplýsingar, mér til handa, upp úr samstarfsmönnum sínum. Veit ekki hvað hún hét, því starfsfólk Húsasmiðjunnar gengur ekki með nafnspjald á sér. Í gær fór ég svo í Húsasmiðjuna í Grafarvogi, í svipuðum erindagjörðum, nema nú ætlaði ég að taka framkvæmdirnar einu skrefi lengra og láta verða af því að panta og/eða kaupa ákveðna hluti. Fór inn með sæla minningu gærdagsins í huga og staðráðin í því að vinda mér beint að starfsmanni og æskja aðstoðar, í stað þess að ramba stefnulaus um í hálftíma fyrst. En þá vildi svo óheppilega til að í þjónustubásnum í hreinlætistækjadeildinni var heill hópur af strákum, sennilega flestir á aldrinum 20 – 25 ára. Þeir voru niðursokknir í heitar strákaumræður sem ég veit reyndar ekki um hvað snérust þar eð ég lagði ekki við hlustir heldur frekar árar í bát og ákvað að snúa mér ekki til starfsmanns eftir aðstoð fyrsta kastið. Strunsaði fram hjá þeim og blótaði í hljóði (áður en ég svaraði) þegar einhverjum þeirra varð á að bjóða mér góðan daginn. Fann eitthvað af því sem ég þurfti en ekki allt og sá þá mér til gleði að testósterongengið hafði fært sig út í horn og á básnum var aðeins eftir einn ungur piltur. Snéri mér að honum og spurði hvar ég finndi borðplötur og svo í framhaldi af því þurfti ég að fá svolitlar frekari upplýsingar um þær, sem hann veitti eftir bestu getu. Ég spurði hann nafns. Hann hét Jón og var greinilega nýr í starfinu því hann þurfti að spyrja aðra um allt sem ég spurði hann að og fletta endalaust mikið upp í tölvunni. Loks fól hann mig öðrum pilti sem hét Fjölnir. Fjölnir taldi sig nú aldeilis hafa svör við öllu á reiðum höndum. Til dæmis taldi hann að uppgefið verð fyrir borðplötur, þar sem stóð 1RÚN væri ekki með viðkomandi rúnningu innifaldri heldur bættist við verðið fyrir slíka þjónustu. Hann gat þó ekki útskýrt hví plötur með áletruninni 2RÚN væru því dýrari og þurfti að fara í tölvuna til að átta sig á að hið rökrétta væri rétt. En hann fullvissaði mig um að rúmir fimm metrar væru til af borðplötunni sem hugur minn girntist.
Næst spurði ég Fjölni hvort nóg væri til af ákveðinni tegund þvottahúsvaska. Hann fór í tölvuna og sagði að engir slíkir væru til. Ég spurði hann þá hvort þeir væru til í öðrum verslunum og hann fór aftur í tölvuna og sagði svo ekki vera. Ég sagði honum þá frá því að stórvinkona mín á Smáratorgi hefði svarið og sárt við lagt að nóg væri til af þeim þar og hann fór aftur í tölvuna og sá þá að vissulega var nóg til af þeim, bæði hjá honum og öðrum, hann hafði bara verið með vitlaust númer.
Að lokum spurði ég Fjölni hvort ég mætti hugsa málið um stund og hringja svo inn pöntun á borðplötu. Hann taldi að slíkt ætti að vera í lagi og mælti með því að ég hringdi þá í Val sem hann sagði vita mest um allt. Ég spurði hann hvernig greiðslu væri háttað þegar maður hringdi inn pöntun, hvort hægt væri að greiða þegar varan væri sótt. Hann taldi það af og frá, sagði að ég þyrfti að gefa upp kortanúmer og tilheyrandi í símann.
Hringdi svo í Val þegar heim var komið og komst þá að því að borðplatan sem Fjölnir hafði fullvissað mig um að til væri í metravís var ekki til nema í nokkurra sentimetra bútum. En áður en ég komst svo langt að hallmæla Fjölni tók Valur upp fyrir hann hanskann og sagði að ekki væri nú von að hann hefði getað vitað það, blessaður. Valur fann hins vegar fyrir mig álíka góða (vona ég) borðplötu á viðráðanlegra verði, sem ég pantaði að bragði. Hann vildi ekki sjá neitt kortanúmer og var helst á honum að heyra að honum þætti út í hött að stinga upp á svoleiðis, taldi langeinfaldast að ég greiddi bara þegar ég sækti plötuna.
Andvarp.

0 Comments:

Skrifa ummæli

<< Home