miðvikudagur, apríl 27, 2005

Hvað haldiði?
Í eitt ár og þrjá mánuði hef ég verið að paufast í hálfmyrku eldhúsi þar sem lykilljósið fyrir alla vinnuaðstöðu - viftuljósið - hefur vantað. Engar perur.
Einhver fór á stúfana á sínum tíma og sagði svo frá því að aðeins væri hægt að kaupa þessar perur í einni búð á landinu, og þá aðeins með því að gefa upp alls kyns flókin númer og mál. Og svo leið tíminn og þrátt fyrir jólagjafaósk og ákafa þrá var áfram myrkur í kringum eldavélina öll kvöld. Þar til í dag... að ég ákvað að hringja í búðina góðu og fá nákvæmlega gefin upp þessi númer og mál öll svo að ég gæti nú látið verða af því að kaupa þessar blessuðu perur - úr því enginn annar gerði það.
Og viti menn - þetta voru bara ósköp venjulega 40W perur. Átti nokkrar inni í búri. Skrúfaði tvær í og voilá...

þriðjudagur, apríl 26, 2005

Einu sinni var álfaprinsessa sem lenti í þeim hremmingum að álfaheitsveinn hennar sveik hana í tryggðum, einmitt þegar þau voru í þann mund að stofna sitt eigið konungsríki! Álfaprinsessan var miður sín í margar vikur og fékk síðan hræðilegt mein sem jók enn á kvöl hennar - í viðbót við þá áþján sem innan skamms myndi dynja á; níðþungt álfavorpróf. En mitt í öllu svartnættinu, þegar öll von virtist úti, skein ljós úr óvæntri átt. Álfaprinsessan átti nefnilega frænku sem stjórnaði af mildilegri festu í nálægu konungsríki. Álfafrænkan sendi gullslegnu álfahraðlestina til að ná í prinsessuna döpru og bauð henni að dvelja hjá sér, í vellystingum, við söng og dans, í heila fimm daga - sem í álfheimum eru akkúrat passlegur tími fyrir hjartasár (sem og bólgna eitla) til að gróa.
Um þetta hefur Véfréttin aðeins tvennt að segja:
  1. Góða ferð!
  2. Keyptu þér eitthvað sem glitrar og glóir!

föstudagur, apríl 22, 2005

GLEÐILEGT SUMAR!

Ég er ekki með þursabit.

miðvikudagur, apríl 20, 2005

Véfréttin hvetur lesendur sína til að segja skoðun sína á Benedikt sextánda í þar til gerðum kommentlinkum hér að neðan...

föstudagur, apríl 15, 2005

Allt í lagi þá, Steinunn:
Í gær sótti ég um mastersnám við Háskóla Íslands. Áhugasamir geta fengið nánari upplýsingar í gegnum beinan kontakt.
Í dag get ég ekki gert neitt. Engin einbeiting.
Þá ætla ég að tala um söng. Eða tónlist. Eða... tja, endurgerð laga. Ég hef löngum skipað mér í raðir umburðarlyndra (vil ég meina sjálf, allavega) varðandi endurgerðir laga. Fólk á það til að býsnast yfir að þeir sem endurflytja lög geti ekki gert það eins og upprunalegi listamaðurinn. Í þannig tilvikum er ég gjarnan fröken sólargeisli og held því fram að öllum sé frjálst að fara hvernig sem er með hvaða lög sem er... ja, í stórum dráttum. Nenni ekki að fara út í flóknar útskýringar á ekki meira spennandi hlut. En þetta snýst náttúrlega um að setja sinn eigin blæ á lagið (eða eins og ædol-dómararnir sögðu gjarnan: ,,Þú gerðir þetta að þínu").
En svo kom babb í bátinn. Fyrir nokkrum dögum, ja eða vikum jafnvel, fyrir allavega nokkru síðan, var ég að eldhúsast og Sveimhuginn hafði innleitt útvarpsundirleik í heimilislífið. Mér að óvörum var allt í einu smellt á laginu Me And My Bobby McGee. Mikið uppáhaldslag, þrungið unglingsminningum. En mikil var kvöl mín er ég heyrði einhverja bláókunnuga söngkonu herma eftir drottningunni sjálfri, af vanefnum miklum í þokkabót. Ég veit ekki hver það var, enda skiptir það ekki öllu máli, það sem skipti máli var að hún reyndi að gera allt eins og Janis, bara ekki jafn vel, enda ekki hægt að jafna gyðjuna (hvað þá toppa). Og ég vissi ekki og veit eigi enn vel hvað mér á að finnast. Sennilega eru bara takmörk fyrir öllu. Og þó... ég hefði frekar vilja heyra lagið rappað, eða dauðarokkað, heldur en í svona wannabe-halló-ég-er-sveitasöngkona-ruslútgáfu.
Nóg í bili.
Véfréttin þröngsýna