laugardagur, júlí 31, 2004

Véfrétt spyr:
Hvað er það versta við kóngulær?
Véfrétt svarar:
Hæfileikinn til að hlaupa út á hlið. Já og afturábak ábyggilega líka. Hvaða sjáanleg lífvera önnur er jafnvíg í allar áttir? Hvurslags horror?!

sunnudagur, júlí 25, 2004

Hin algerlega ósvala Véfrétt hefur verið miður sín í 9 daga af áhyggjum af hallærisleik sínum. Enn hafa engar ábendingar um aukið kúl borist.
Um síðustu jól langaði Véfrétt að gefa mikilvægri persónu vekjaraklukku í jólagjöf. Véfrétt lagði því út af örkinni í leit að hinni einu réttu. Þetta voru kröfurnar sem Véfrétt gerði:
* Klukkan má ekki vera háð rafmagnsinnstungu, ss. engin snúra.
* Á klukkuna verður að sjást vel í myrkri, t.d. mætti hún gjarnan vera með svona geisla sem varpar tímanum á nærliggjandi vegg eða upp í loft, en aðrar vel sjáanlegar lausnir koma vel til greina.
* Klukkan verður að geta boðið upp á fleiri en einn hringitón, helst nokkra. Ekki væri verra ef notandi klukkunnar gæti samið eða sett saman hringitóna sjálfur. Best væri náttúrlega að geta fengið þá af netinu - eins og fyrir síma.
* Klukkan má helst ekki vera mjög ljót.
* Klukkan á helst ekki að fara út fyrir verksvið sitt og sýna hluti á borð við rakastig, hitastig, tunglstöður, gengi gjaldmiðla eða veðurfarsupplýsingar.
Véfrétt er búin að leita að klukku sem þessarri í um það bil 8 mánuði, stundum hefur hún komist merkilega nálægt takmarkinu, en aldrei alla leið. Almennilegar vekjaraklukkur eru líka dýrar. Nú auglýsir Véfrétt eftir úrsmiði eða tæknisnillingi sem getur smíðað svona klukku, gegn vægu gjaldi.

föstudagur, júlí 16, 2004

Var að sörfa og rakst á kúl nokkur blogg. Hef satt að segja ekki aflað mér mikillar þekkingar á bloggum. Hélt bara að allir gætu bloggað og svona. Hvað er ég að tala um; allir geta bloggað!
En ég rakst sumsé á blogg svala fólksins, og áttaði mig á því hve ósvöl ég er og roðnaði og fór hjá mér og datt ekkert sniðugt í hug til að blogga um og fæ mig einhvern veginn ekki til að kópíera svölu frasana og allt það. Ábendingar um aukið kúl óskast!

fimmtudagur, júlí 15, 2004

Véfrétt hefur tekið eftir sviptingum í skopskyni landa sinna. Þær má meðal annars sjá á því hverjir tröllríða skopmarkaðnum hverju sinni. Í æsku Véfréttar voru það óvéfengjanlega Halli og Laddi sem voru fyndnu kallarnir. Áður voru það kannski Kaffibrúsakarlarnir og mögulega Ómar Ragnarsson, erfitt að segja.
Nema hvað, svo kom Spaugstofan og Halli og Laddi rykféllu og fóru í meðferð. Svo komu Radíusbræður og enginn var maður með mönnum nema hann gæti klæmst dálítið og skitið út Brynju X. Síðan tóku Fóstbræður við. Fóstbræður hafa einokað markaðinn í mörg ár, en svo virðist sem Auddi og Sveppi séu það sem koma skal. Það sem vantar í hópinn er fyndin kona, eða jafnvel fyndið kvennapar. Fyndnir nýbýar og fatlaðir gætu líka komið til greina. Fötluð nýbúakona gæti kannski verið fyndin. Það væri samt betra ef þær væru tvær. Jafnréttið lengi lifi.

miðvikudagur, júlí 14, 2004

Einkanúmer dagsins: Taurus, Rommel, Púkinn og TÖNN!
Tvö síðastnefnd fá þjóðleikaverðlaun fyrir að vera íslensk, en Rommel fær ráðgátuverðlaunin - hvað í ósköpunum á það að tákna? (Minnir dálítið á Tótal...)

þriðjudagur, júlí 13, 2004

Vinnueftirlitið - Matvælaeftirlitið - Bifreiðaeftirlitið - Ungbarnaeftirlitið?

föstudagur, júlí 02, 2004

Véfrétt fékk Birtu, hið rómaða menningartímarit, senda heim. Véfrétt komst að því að femínistar eru fallegir og frekar trendí líka. Þeir femínistar sem þetta á að einhverju leyti ekki við eru látnir standa aftast og gerðir svolítið blurry þegar taka skal flottar myndir.
Konur eru líka menn!