fimmtudagur, desember 28, 2006

Véfréttinni þykir miður að mynd af erkióvini mannkyns hafi skreytt bloggsíðu hennar yfir hátíð ljóssins. Engu að síður vill hún nota tækifærið nú og óska sínum fáu en bráðmerkilegu lesendum gleðilegrar hátíðar.

Og án þess að vilja stuðla að áfengisneyslu, hvað þá óhóflegrar, getur Véfréttin bent áhugasömum á þennan ansi skondna alíslenska leik.

Eftir að hafa spilað lengi kvelds er Véfréttin engu nær vinningi, ef frá eru taldir endalausir spilapeningavinningar, sem gera það að verkum að hægt er að spila ansi lengi í viðbót. En semsagt, áhugasamir geta freistað þess að verða sér úti um áfengi, mat, símainneign eða tölvu í blálok ársins og á meðan síast myndrænn áróður hægt en örugglega inn í heilabörkinn. Góða skemmtun.

fimmtudagur, desember 21, 2006

Á vinnustað Sveimhugans eru í gangi endalausir leynivinaleikir fyrir jólin. Nú veit Véfréttin ekki allt um fyrirkomulagið, en eitthvað snýst þetta um gjafir til og frá vinnufélögum, án þess að neinn megi vita hver gaf. Fyrr en á fimmtudögum, þá er uppgjör (eins og í dag, væntanlega).

Nema hvað, í síðustu viku fékk Sveimhuginn tímaritið The Economist frá leynivinkonu sinni, sem reyndist vera ein af hans fjölmörgu undirsátum á vinnustaðnum. Henni fannst, skv. yfirlýsingum í fimmtudagsuppgjörinu, að blaðið væri eitthvað svo ægilega mikið ,,hann".

Í heiðarlegri viðleitni til að standa undir væntingum undirmanna sinna lagðist Sveimhuginn upp í rúm, snemma kvölds í beinu framhaldi, og gluggaði í The Economist.

Ekki varð Véfréttin vör við að lesturinn yrði langur. Hins vegar lagði Sveimhuginn blaðið á náttborðið, með forsíðuna upp, véfréttarmeginn, nota bene.

Og síðan hefur bjargvættur heimsins, George W. Bush starað frekjulega á Véfréttina í hvert sinn er hún hyggst ganga til náða. Þetta finnst Véfréttinni afar óþægilegt og afar óviðeigandi líka, í skjóli hjónaherbergisins.

En einhvern veginn hefur hún ekki haft það í sér að hrófla við blaðinu, það er jú mikilvægt tákn um stöðu Sveimhugans á vinnustað sínum.

Kannski í jólahreingerningunni?

mánudagur, desember 18, 2006

Jæja, bloggpásan rofin - prófin búin. Vei, vei, vei!

Véfréttin ætlaði virkilega að skrifa fyrr enda blogglöggan komin í málið. En þegar enginn er andinn er dálítið út í hött að vera að rembast.

Andinn er lítill núna líka.

Véfréttin getur þó upplýst

a) að öll jólakortin sem tilheyra einstaklingum með þekkt heimilisföng eru nú komin úr hennar höndum
b) að hún var ekki í sokkabuxum í dag eftir langa kuldatíð og naut þess - mmh..

Meira síðar?