miðvikudagur, nóvember 12, 2008

Vá, hvað er eiginlega orðið langt síðan ég bloggaði?

Sannleikurinn er að status update-in á Facebook gefa mér alla þá útrás sem ég þarf.

Nokkur dæmi:

Sunnudagur
  • Véfréttin væri alveg til að sofa fram yfir 6.00 á sunnudagsmorgnum
  • Véfréttin býður PABBA SINN velkominn á Facebook

Mánudagur

  • Véfréttin ætlar aldrei aftur að láta túbera á sér hárið
  • Véfréttin kemst ekki á fund í kvöld, vonast til þess að komast á miðvikudaginn
Þriðjudagur
  • Véfréttin á afmælisbörn í dag
  • Véfréttin þráir að hitta krúið sem talar fyrir Stubbana
  • Véfréttin vill vita hver borgar fyrir ókeypis tónleikana
  • Véfréttin búin á því
Í dag
  • Véfréttin lætur sér ekki leiðast
... hver þarf meira?

fimmtudagur, september 04, 2008

Véfréttin styður ljósmæður og vill að þær fái verulega góð laun af því að þær vinna verulega mikilvægt starf og gera það verulega vel.

föstudagur, júlí 18, 2008

Nú, þið kannist við kjánahrollinn, hann þekkja jú allir.

Véfréttin er á því að hann sé aldrei betri en þegar hún sjálf á þátt að valda honum, t.d. með performance of a lifetime með hljómsveit og alles í fyrrum jógóslavneska lýðveldinu Makedóníu.

Njótið!

miðvikudagur, júlí 09, 2008

Jú, mikið rétt - Véfréttin hefur ekki bloggað mikið upp á síðkastið. Ketkonurnar hafa fengið að tróna á toppnum ansi lengi.

Svona er víst lífið.

En Véfréttina langar að deila með ykkur rasshitafóbíu sinni. Hún brýst einna helst fram í strætó. Í Mosó-rútunni í gamla daga átti litla Véfréttarbarnið oft í stökustu vandræðum vegna téðrar fóbíu. Hún birtist í ofsafengnum ótta við hitann sem stafar af sætum sem aðrir rassar hafa nýlega vermt. Kannast einhver við þetta?

Nema hvað, jafnvel fegurstu yndisverur gefa frá sér mengaðan rasshita, skv. fílósófíu Véfréttarbarnsins. Að því sögðu verður þó að taka fram að mengunaráhrifin urðu því alvarlegri sem rasseigendur voru minna álitlegir.

Véfréttarbarnið átti það til að álpast í sæti sem aðrir höfðu nýlega setið í og átti þá í stökustu vandræðum með að skorða sig af þannig að það ,,virtist sitja" en snerti þó ekki hið hættulega, mengaða svæði - allt þar til sætið varð orðið kalt á ný. Þessi vandræði urðu hvað mest þegar einhver sem áður hafði setið í sæti nær ganginum færði sig að glugganum til að rýma til fyrir Véfréttarbarninu. Tilfæringar Véfréttarbarnsins við að þykjast sitja en snerta þó sætið eigi fóru eflaust ekki fram hjá sessunautum þess.

Nú er Véfréttin rígfullorðna nýbyrjuð að taka strætó á ný eftir 5 ára hlé. Og sjálfri sér að óvörum verður hún vör við að rasshitafóbían lætur á sér kræla á ný.

Í dag vann Véfréttin stóran áfangasigur í baráttunni við fóbíuna þegar hún hlammaði sér í ylvolgt sæti við glugga og beitti sjálfa sig miklum sjálfsaga til að sitja þar sem fastast í þær 10 mínútur (á að giska) sem eftir voru af strætóferðinni.

Baráttan heldur áfram, t.d. á föstudaginn þegar 19 klukkustundum verður varið í setu í flugvélum (x3), flugvallarbiðsölum og e.t.v. einhverjum rútum og/eða strætóum.

To be continued...

föstudagur, apríl 25, 2008

laugardagur, apríl 19, 2008

Meistaraverkið: Hugleiðir (smella, smella, smella)!

þriðjudagur, apríl 15, 2008

Markaðsráðgjafi Hugleiða (ehf framtíðarinnar) ráðleggur framkvæmdastjóra eindregið að segja frá frumkvöðlaverkefni Hugleiða á öllum mögulegum vettvangi, svosem bloggi, Facebook, Linked-in og svo framvegis.

Lítt upplýstur framkvæmdastjóri myndi kannski láta hugsanlegan plebbaleik fæla sig frá því, en þrautþjálfaður af success coaches dauðans eins og þessi framkvæmdastjóri er þá skilur hann til hlýtar mikilvægi networking (hér með lýkur enskuslettunum í þessari færslu).

Þannig að hlutverk þitt, lesandi góður, er að lesa það sem hér fer á eftir, uppveðrast ef kostur er, og láta svo alla sem þú þekkir (einkum og sér í lagi eldri borgara eða fólk sem getur tekið sér frí í heila viku í maí) vita af þessu frábæra framtaki.

Vikuna 19. – 23. maí næstkomandi verður boðið upp á 3 yfirgripsmikil námskeið í Reykholti, Borgarfirði.

Í samvinnu við Snorrastofu verður boðið upp á námskeið í sögu Snorra Sturlusonar. Farið verður ítarlega í sögu Snorra Sturlusonar, sagt frá rannsóknum, gengið um svæðið og fleira. Námskeiðið er í umsjá Óskars Guðmundssonar sagnfræðings og rithöfundar en aðrir fyrirlesarar verða Sr Geir Waage, Bergur Þorgeirsson forstöðumaður Snorrastofu og Evy Beate Tveter verkefnisstjóri. 30 kennslustundir.

Námskeið í leikrænni tjáningu verður í umsjá Margrétar Ákadóttur leikkonu og MA í leiklistarmeðferð. Byggt verður á sagnahefð Íslendinga og endað á leiksýningu á kvöldvöku síðasta kvöldið. 30 kennslustundir.

Námskeið í jóga verður í höndum Aaniku Chopra, en það námskeið er hið eina sem fram mun fara á ensku. Farið í fræðin að baki jógaiðkun, mataræði og lífsstíl og kenndar ýmsar æfingar. 30 kennslustundir.

Þátttakendur velja sér eitt þessara þriggja námskeiða og kennsla fer fram frá mánudegi til fimmtudags. Innifalið í námskeiðsgjöldum er fullt fæði og gisting auk tveggja kvöldvaka.

Gist verður í tveggja manna herbergjum á Fosshóteli Reykholti, nema annars sé sérstaklega óskað. Herbergin á hótelinu eru venju fremur rúmgóð og hvert herbergi er útbúið með heilsusængum og sérhönnuðum heilsusængurverum. Að auki eru á Reykholti heitir pottar, dagsbirtumeðferðarherbergi, nuddstólar og ýmislegt fleira sem gestum stendur til boða. Á kvöldvökunum koma meðal annars fram Sigurður Rúnar Jónsson eða Diddi fiðla, Sigurður Hreiðar Hreiðarsson rithöfundur og þéttur hópur heimamanna.

Hægt er að fá nánari upplýsingar og skrá sig í síma 562 5575 eða á netfanginu hugleidir@simnet.is



Fosshótel Reykholt