Véfréttinni er orðið ómótt af efnishyggjunni sem hún hefur neyðst til að láta stjórna gjörðum sínum í allt of marga daga.
Nú eiga Véfréttin og spúsi aldeilis glæsilegan nýjan stálburstaðan ísskáp (sem því miður er 4 sentimetrum of djúpur til að passa inn í ísskápsgatið í innréttingunni, af því að Bræðurnir Ormsson og HTH-innréttingar eru með samsæri).
Einnig hafa þau eignast gljábónaða skærrauða ryksugu með hepa-síu, stórglæsilegar þvottavélar fyrir tau annars vegar og leirtau hins vegar og aldeilis nýtískulegan sturtuklefa sem eflaust verður þrautin þyngri að koma upp.
Allt þetta kostaði allt of marga peninga, ofan á gólfefnaútgjöldin. Eftir er að kaupa ljós, gardínur, rúmdýnur og alls konar fleira sem einnig kostar skildinginn.
Véfréttin hefur fram til þessa lifað einföldu lífi, keypt mikið notað og sömuleiðis notið góðs af innanstokksmunum sem aðrir fjölskyldumeðlimir hafa fengið leiða á. Þannig hefur Véfréttinni liðið ágætlega.
En eins og þeir sem vel hafa fylgst með vita hafa nú örlögin hagað því svo að Véfréttinni er ekki lengur stætt á því að kaupa notað og skyndilega hefur hún sogast inn í einhverja stálburstaða efnishyggjuhringiðu sem hún sér ekki út úr. Og í hvert skipti sem VISA-kortið er straujað stækkar efnishyggjuhnúturinn í maganum...
1 Comments:
Sit hér umvafin ömmubúslóðum og góða hirðisfeng og fæ kökk af samúð vegna þessa andstyggilega neyslukapphlaups sem þið eruð neydd til að taka þátt í.
Vonandi tekst helv. sveppunum ekki að spila út trompinu þar sem þið neyðist til að kaupa nýjan Landcruiser.
BTW takk fyrir ónefnu linkinn. Gaman að þessu.
ps,
hvað er hepa sía?
Skrifa ummæli
<< Home