Lífsgæðakapphlaupskrísur Véfréttarinnar halda áfram.
Véfréttin var farin að koma sér upp massakomplexum yfir að bloggin hennar væru orðin hundleiðinleg, þar sem þau hafa undanfarnar vikur aðeins snúist um húsnæðisleit og nú upp á síðkastið um fjárfestingu í heimilistækjum og öðrum eins hégóma (þess má geta að ákveðinn slagari með Tappa Tíkarrassi hefur ekki hætt að suða fyrir eyrum Véfréttar á meðan á öllu þessu stendur... pönkfróðir lesendur átta sig á því hver það er).
En sannleikurinn er náttúrlega sá að enginn nennir að lesa blogg á sumrin hvort eð er (nema þessar tvær, mikilvægar sem þær eru) þannig að þetta er sennilega allt í lagi. Með haustinu mun Véfréttin gerast skemmtilegri en nokkru sinni fyrr.
Undanfarna 3 daga hafa Véfrétt og Sveimhugi verið á höttunum eftir sófasetti og sjónvarpi. Því miður er listinn ekki við hendina núna, en heimsóttar hafa verið á annan tug húsgagnaverslana og 5 sjónvarpsverslanir. Hjónakornin voru fljót að átta sig á því að þau hafa hvorki vit né áhuga á sjónvörpum, nei fyrirgefið flatskjám því annað er ekki í boði, og hafa því tekið þá ákvörðun að versla bara við þann sem þeim hefur þótt bjóða bestu greiðsluskilmála. Einhver kynni að spyrja sig af hverju þau væru þá að kaupa sjónvarp yfir höfuð, en það er efni í heila færslu út af fyrir sig...
Sófasettið er öllu meira vandamál. Sófasett þarf að vera þægilegt, ódýrt og smekklegt. Helst í þessari röð. Ef einhver hélt að IKEA byði best í þessum efnum þá ætti sá hinn sami / sú hin sama að kynna sér málin betur. IKEA er bara með meðal-markaðsverð, ekki jafn dýrt og Exó kannski, en ekkert ódýrast heldur, né flottast ef út í það er farið. En hér þarf að koma með smá sagnfræðilegt innskot:
Véfréttin hefur aldrei verið kona mikilla stílpælinga. Véfréttin hefur haft eftirfarandi að leiðarljósi við val á húsgögnum fram til þessa:
a) Lágt verð (helst frítt, t.d. notað frá ættingjum)
b) Praktískt, t.d. góðar hirslur og þannig
c) Doldið fönkí og jafnvel nett stuðandi í útliti ef mögulegt er (appelsínugult hefur verið vinsælt)
- einnig í þessari röð.
Til allrar óhamingju áttuðu hjónin sig ekki á því hvurslags samsafni innanstokksmuna þau hafa sankað að sér í gegnum tíðina þegar þau völdu sér einkar smekklega nýja íbúð með ljósum eikarinnréttingum og burstuðu stáli og í ofanálag voru þau svo óforskömmuð að velja jafn smekklegt ljóst eikarparkett á alla íbúðina, sem gerir að verkum að áður en flutt var inn var íbúðin bara hreinn draumur á að líta.
Eftir að húsgögnin fóru að hlaðast inn fór þó að síga á ógæfuhliðina. Ráðandi litir í húsgögnunum eru svart, grátt, dökkbrúnt og dökkrautt - stakasta andstæða við hinn ljósa og hlýlega viðarblæ sem var á íbúðinni tómri. Að auki passa þau engan veginn saman svona innbyrðis heldur, sem var ekki vandamál í gömlu íbúðinni, þar sem veggfóðrið var appelsínugult og silfrað...
Í nýju híbýlunum gráta hvítu veggirnir þegar hin myrka húsgagnasinfónía dynur á þeim. Véfréttin vissi ekki að hún hefði smekk, en hefur undanfarna daga rekið sig átakanlega á að Innlits-útlits-áhrifin hafa náð til hennar líka.
Og nú aftur að upprunalega umfjöllunarefninu: Fundist hafa tvö sófasett sem koma til greina. Bæði eru 3 + 2 + 1. Annað er óheyrilega þægilegt, svo ódýrt að leitun er að öðru eins, en því miður tiltölulega ljótt. Hitt er einnig þægilegt, þó ekki jafn yfirgengilega unaðslegt og hitt, fremur ódýrt miðað við markaðsverð en samt ríflega helmingi dýrara en hitt og mjög smekklegt að mati Véfréttarinnar.
Hvað gerir Véfréttin nú? Á hún að velja þægindi og hagstætt verð og setja þar með punktinn yfir i-ið í stíllegri rústun nýju íbúðarinnar, eða á hún að setja útlit í forgang og skuldsetja sig til frambúðar?
Ráðleggingar óskast (þó ekki værið nema frá ykkur tveimur)...
6 Comments:
Hmmm...Það er spurning hvort smekklegt og einfalt sófasett með fönkí púðum gæti ekki annað hvort sameinað svolítið stílbrotin, eða verið kannski sniðug uppá settlegri framtíðarkaup...,sumsé að setja línuna fyrir fullorðinsárin, þó þið hafið kannski ekki efni á að kaupa meiri búslóð fyrr en þið flytjið á Hlaðhamra.
Og eruð þið ekki hvort sem er í djúpum skuldapytti?>:-)
Nema ykkur vanti svona "conversation piece" í stofuna fyrst þið eruð ekki með brjálaða veggfóðrið lengur!
Annars bendi ég á Dísu, hún hefur innréttingarauga sem lætur Völu Matt gráta af öfund.
Finnst bæ þe vei bara gaman af búferlabloggi!!
Haltu ótrauð áfram!!!
Knús
H
Getur það verið svo ljótt að ekki sé hægt að setja þægindin í fyrsta sæti? -- Smám saman má svo spreyja megnið af þessu dökka dóti í sama kalkaða grafarlitnum og veggina sem þeir standa við…
Álfur úr hól (Huldu)
ég hef ótrúlega fátæklegan og spéhræddan smekk og læt mér því nægja að skrifa þetta til að þú vitir að ég les og hef gaman af hverju því sem þú skrifar, og hvet þig til að fara að ráðum káradísar - hafa samband við völu matt-legrar vinkonu.
Þægindi vega mikið í mínum huga, en held ég hafi þó smitast að einhverju leiti af lífsgæðakapphlaupssyndrominu ykkar og því eru smekklegheit líka mikilvæg...
S.s. engin hjálp í mér :/ Kannski ef ég fæ að skoða/prófa þau...
LOL!! Hvur þarf svo sem sófasett? Það er hægt að fá uppblásna stóla og sófa sem kosta samasem ekkert meðan maður hugleiðir hagkvæmasta kostinn. Svo er líka ferlega leiðinlegt til lengdar að vera hagkvæmur og skynsamur....
Svafa skafa
Skrifa ummæli
<< Home