föstudagur, apríl 04, 2008

Véfréttin var sú eina sem tapaði á 25 króna afslættinum á bensíni í fyrradag. Enda þarf til þess sérstaka lagni.


The prophet mobile var ekkert tómur af bensíni, sennilega var tankurinn um 2/3 fullur. Sveimhuginn benti Véfréttinni samt á að smella sér, til að græða smá. Þannig að Véfréttin renndi upp að splunkunýju Atlantsolíu-bensínstöðinni í Mosó og ætlaði að fylla. Í þeim tilgangi opnaði hún bensíntankinn og smeygði VISA-kortinu í þar til gert slíður. En þegar að því kom að slá inn leyninúmer var sjálfsalinn með einhverja stæla og sagði leyninúmerið rangt. Svo að Véfréttin sló það inn aftur, en salinn sagði það aftur rangt. Sem er rangt hjá honum, því þó Véfréttin sé þekkt fyrir að gleyma leyninúmerum, þá er hún með sérstakt kerfi á tiltekna númeri og man það því alveg pottþétt.

Svo að Véfréttin hélt áfram að reyna og sjálfssalinn hélt áfram að vera með meiningar. Að endingu mundaði Véfréttin debetkortið, en fékk þá í andlitið að það væri útrunnið. Véfréttinni var farið að renna í skap, enda ekki kunnugt um að debetið hefði runnið sitt skeið. Hún reyndi því aftur, en allt kom fyrir ekki og nú var tekin að myndast röð fyrir aftan Véfréttarrennireiðina. Þannig að Véfréttin skellti bensínlokinu aftur í fússi, hlammaði sér inn í bílinn og brunaði í burtu í reykskýi (eða þannig á það allavega að vera í minningunni).

Það sem hún áttaði sig ekki á þá var að innra bensínlokið, ss. tappinn sem maður skrúfar í bensíntankinn, var uppi á bílnum. Þar lætur Véfréttin hann á meðan hún dælir. Í stuttu máli hefur ekkert til hans spurst síðan.

Samkvæmt upplýsingum frá umboðinu er svona lok ekki til hjá þeim. Því getur Véfréttin annað hvort krúsað á milli partasala í leit að loki af þessari tegund (jei), eða pantað lok fyrir 4.000 - 5.000.- krónur.

Niðurstaða; á meðan þið hin grædduð marga 25 kalla tapaði Véfréttin 4.000 - 5.000.- kalli (að ótöldum tímanum og umstanginu). Slæmt karma?

1 Comments:

Blogger Unknown said...

Mæli með plastpoka og sterkri gúmmíteygju...á stútinn á tankinum það er að segja...
Annars fær ekkert mig til að taka þátt í svona tilboðum þar sem ég er með fóbíu fyrir fólksfjölda og múgæsingu. Svo ég borga frekar aðeins meira daginn eftir þegar ég fæ frið.
Annað en foreldrar mínir sem keyra hiklaust á milli bæjarfélaga til að spara 8 krónur á líter af sprite.

föstudagur, apríl 04, 2008 2:59:00 e.h.  

Skrifa ummæli

<< Home