Hefur þú einhvern tíma upplifað mikla eftirvæntingu, til dæmis í tengslum við frí, ferðalag eða annað í þeim dúr? Hefur þú t.d. pantað eitthvað lúxusferðalag og síðan staðið sjálfa(n) þig ítrekað að því að dreyma um áfangastaðinn? Til dæmis verið á leiðinni í vinnunna og yljað þér við myndir af ströndinni sem var rétt við hótelið sem þú ætlaðir að gista á... kannski stolist til þess í vinnunni að kíkja á myndir af hótelinu á netinu, eða af skipinu, farfuglaheimilinu, tjaldstæðinu... eða hvað það var. Séð sjálfa(n) þig fyrir þér við sundlaugarbakkann, á miðjum Kínamúrnum, uppi í sögufrægum turni eða viðlíka, fundið tilhlökkunarhrollinn hríslast um þig og varla þorað að trúa að bráðum munir þú verða þeirrar gæfu aðnjótandi að fá að vera þar? Kannastu, semsagt, við þessa tilfinningu um óstjórnlega tilhlökkun til einhvers sem þú hefur góða og nokkuð staðfesta von um að sé alveg að fara að gerast og muni lyfta grámyglulegu lífi þínu upp á annað og betra stig?
Það kom flatt upp á Véfréttina í morgun þegar hún áttaði sig á því að það er akkúrat þannig sem henni líður núna. Og nei; það er ekki út af rómantísku vetrarfríi á 7 stjörnu hóteli (með sótthreinsuðum glösum) á Dubai. Það er eftirvænting eftir því að fá að flytja aftur inn í eigin íbúð.
Eigin íbúð. Athugið, lykilorðið hér er eigin.
Skríða undir eigin sæng - fara með eigið handklæði í eigin sturtu, nota eigið sjampó og velja á eftir úr eigin nærfötum og eigin fötum (þá meina ég ekki bara þessum örfáu þvældu plöggum sem komu með í útlegðina)... elda eigin mat í eigin eldhúsi og nota eigin tölvu, eigin sjónvarp, eigin salernisskál, eigin þvottavél, eigin hússíma, eigin... já, eigin-allt.
Það er vissulega gott að vera auðmjúk(ur) en allt er gott í hófi. Véfréttin er ráðsett og hún vill komast heim.
Í veggnum vota greindust gró 4ra mismunandi sveppategunda, þar af tveggja skaðlegra. Tryggingarnar rifu allt í sundur og innsigluðu svæðið með byggingaplasti frá lofti ofan í gólf - loftþétt líming upp við veggina. Dálítið eins og í geim-mynd að kíkja þangað inn.
Á þeim 15 dögum sem liðnir eru hefur fjölskyldan skrölt með hor í nös og ofur-ofur-ofnæmi fyrir myglusveppum og öllu sem þeim er skylt á milli 4ra dvalarstaða. Véfréttin sjálf hefur eytt nóttum á 3 sófum, þar af einum svefnsófa, 2 ólíkum dýnum, 2 ólíkum rúmum og á 1 dívan. Börn og bura hafa verið á svipuðum hrakhólum. Bak og mjaðmir hafa elst um 35 ár (allavega hjá þeirri sem hér skrifar).
Til ykkar sem hafið sýnt áhuga á málum okkar og sent andlegan sem og kommentalegan stuðning í formi hvatningar, gríns, hlýju eða bara hvers sem er; takk, takk. Til ykkar sem hafið hýst okkur og umborið (þar með talið ykkar sem gerið það enn); takk, takk.
En það sér ekki fyrir endann á þessu enn.
7 Comments:
við verðum bara að trúa og treysta því að drottinn allsherjar muni styrkja ykkur í biðinni og flýti heimför ykkar. amen.
Þessi ummæli hafa verið fjarlægð af höfundi.
Séra Drífa Þöll?
einmitt, barnið mitt, einmitt!
Ég bjóst við því að þú greindir lesendum frá úrlausn mála í þessari færslu þar sem þú skrifaðir svo mikið um "eigin", beið spennt meðan ég las - hvenær sér fyrir endann á þessu öllu saman?
andlegt klapp á bakið úr Þverholtinu :)
ég er að upplifa mikla eftirvæntingu eftir nýjum fréttum...eða bloggi um e-h allt annað???
Knús
H
Skrifa ummæli
<< Home