fimmtudagur, september 02, 2004

Varð þess áskynja að þessa dagana sé móðins að blogga um upplifun sína af frægum Könum (sjá Fréttablaðið í gær). Hér má ég ekki láta mitt eftir liggja.
Fór að skoða James gamla Brown á dögunum, sem reyndar var ekki létt því risarnir sex sem voru á milli mín og sviðsins gerðu sér far um að dilla sér ævinlega fyrir sjónlínu mína þannig að ég sá helst glitta í goðið þegar hinn jötunsterki og tröllvaxni Sveimhugi lyfti mér. Nema hvað; á leið út, þegar sumir vongóðir voru enn í þvögu að reyna að klappa gamalmennið upp og hinir raunsærri voru farnir að tínast út um risastóru hliðardyrnar á höllinni (sem eru eiginlega ekki dyr, heldur bara veggur sem opnast), þá rambaði ég beint í flasið á kunnuglegum manni. Sennilega hefði ég ekki staldrað við ef hann hefði ekki verið svartur, maður tekur jafnan meira eftir þeim sem eru öðruvísi á litinn en fjöldinn. Kom honum ekki fyrir mig strax, hélt kannski að hann væri gamall nemandi minn eða einhvers starfsfélaga míns. En þá rann skyndilega upp fyrir mér ljós! Forrest Whitaker! Hin mikla hollívúd-stjarna! Og ég kiknaði í hnjáliðunum og fékk öran hjartslátt, en þá var ég reyndar komin fram hjá honum. Leit við og sá að Sigurjón Sighvatsson fylgdi fast á hæla honum og að Balti var einnig á staðnum á flotta risajeppanum sínum. Aldeilis spennandi!
Þegar að bar búlgarska fylgdarmey okkar sem ekki hafði barið goðið augum bauðst ég til að fara með henni til baka og ,,sýna" henni, sem hún þáði með þökkum, án þess þó að koma nafninu fyrir sig. Mér leið pínu eins og nýrri kynslóð trend-leiðsögumanna að leiða pósttúristann um hina nýju og glóbalíseruðu Reykjavík; ,,Hér á hægri hönd höfum við Húsdýragarðinn og hér ögn lengra er íþróttamiðstöð landsins staðsett, nú á vinstri hönd geymum við afdankaðar amerískar tónlistar- og kvikmyndastjörnur, einkum svartar og karlkyns að þessu sinni". Hún kannaðist við hann í sjón og varð öllu glaðari. Var víst nýbúin að sjá Björk á Vegamótum líka og gat því aldeilis bætt við á selebritílistann sinn.
Nú er bara að sitja fyrir Juliu Styles, þeim mikla leiklistarfrömuði. Hefur heimavinnandi húsmóðir eitthvað betra að gera?

0 Comments:

Skrifa ummæli

<< Home