þriðjudagur, nóvember 21, 2006

Í gær fór Véfréttin í hádegismat með Sveimhuganum á ónefndum heilsu-/uppamatsölustað í borginni. Sveimhuginn þurfti snarlega að mæta til vinnu og véfréttin sat ein eftir með salathrúgu og grænmetishyrnu á disk.

En véfréttinni leiddist ekki. Á sama borði sátu nefnilega tvær ungar snótir, öðrum hvorum megin við tvítugt. Án þess að ætla sér að hnýsast komst véfréttin ekki hjá því að sogast inn í æsispennandi umræður þeirra sem snérust einkum um upplýsingar sem þær höfðu fengið af bloggsíðum vina og kunningja, um leið og þær höfðu skýrar hugmyndir um hvað væri leyfilegt að blogga um og hvað ekki.

Note to self: Ekki blogga um fyrsta skemmtistaða-sleikinn sinn.

Véfréttinni til skelfingar var mest fjallað um ónafngreinda konu sem ljóslega var þvílíkt flagð og fláræðiskvendi að hreint hlaut að teljast með ólíkindum að hún gengi laus. Báru bloggfærslur hennar ódýru innrætinu glögglega merki og þar kom víst einnig fram að hún hefði orðið ólétt tveimur mánuðum eftir að hún kynntist barnsföður sínum (sem er semsagt hneisa). Málin tóku þó að skýrast þegar í ljós kom að umræddur barnsfaðir var einmitt fyrrverandi unnusti annars sessunauts míns og hafði víst ekki hagað sér eins og fyrrverendum sæmir eftir sambandsslitin.

Nema hvað, svo uppnumin var véfréttin af samræðunum að hún varð þess ekki vör að lítill salatdressingarlækur fann sér farveg út af disknum hennar, niður á borðið og þaðan niður á lærið á ljósgráu buxunum hennar, hvaðan hann seitlaði áfram niður innanlæris. Nú kunna lesendur að velta því fyrir sér hvort véfréttin sé tilfinningalaus á lærunum, en hafa ber í huga að sökum vetrarhörku var Véfréttin vandlega bólstruð í hnausþykkar gammósíur sem töfðu töluvert fyrir leið salatsósunnar inn að skinni.

Eftir hádegið átti véfréttin að standa fyrir framan 40 manna áheyrendahóp og kynna verkefni, sem er strax minna fýsilegt þegar kona er komin með salatdressingu á lærin.

Því datt véfréttinni í hug þessi blús:

Salatsósa í klofið
Salatsósa í klofið
(og svo upp um eina tóntegund:)
Salatsósa í klofið
(og aftur niður:)
Salatsósa í klofið

(Af öllum lesendum Véfréttarbloggsins er Skoffínið sennilega hæfasti einstaklingurinn til að útsetja þetta nánar. Óska eftir hljóðfæl).

5 Comments:

Blogger Skotta said...

Ég hló upphátt yfir þessari færslu. Þú ert frábær penni.

þriðjudagur, nóvember 21, 2006 12:04:00 e.h.  
Blogger Skoffínið said...

rythma blús gítar byrjar með munnhörpu (til að leggja áherslu á þann mikla blús sem þetta olli þér)
....inn koma bassi og tunnutrommur og the rest is history hehehe

Nokkuð góður salatsósublús

miðvikudagur, nóvember 22, 2006 4:18:00 e.h.  
Blogger Skotta said...

Var að skoða Þuluna.
Mikið eru þær fallegar frænkurnar. Og sú stóra dugleg að hjálpa þeirri litlu á hjólinu.

mánudagur, nóvember 27, 2006 6:55:00 e.h.  
Anonymous Nafnlaus said...

Hahahahahahaha....

sjáumst á lau, ætli við verðum ekki fyrstar eins og vanalega?

Öspmætt

fimmtudagur, desember 07, 2006 11:21:00 e.h.  
Blogger Sveimhugi said...

sting upp á melódíku

fimmtudagur, desember 28, 2006 10:37:00 e.h.  

Skrifa ummæli

<< Home