föstudagur, janúar 07, 2005

Ekki fyrir viðkvæma:

Mannskepnan er viðbjóðslegt dýr. Þetta veit maður og sættir sig við, enda ekkert við því að gera. Allir vita að börnum er þrælað út, út um allan heim, þau eru til dæmis seld í kynlífsþrælkun og misnotuð í heimahúsum til skiptis. Konur eru líka víða seldar í kynlífsþrælkun, nú svo eru stríð hér og þar sem innifela iðulega hópnauðganir sem part af stríðsleiknum, fjöldamorð og pyntingar. Börn eru þjálfuð í hermennsku og gefið dóp og þau látið æfa sig með því að sálga eigin fjölskyldu. Svo eru til foreldrar sem drepa eigin börn og jafn vel enn fleiri sem drepa annarra manna börn, ef ekki í stríði, þá bara annars staðar. Það er semsagt alls konar subbuskapur sem viðgengst.

Vitneskjan um allt þetta er svona til staðar einhvers staðar aftarlega í kollinum á venjulegu vestrænu fólki, en skiptir engu sérstöku máli. Við vitum, en þýðir eitthvað að velta sér upp úr því? Sumir ættleiða langt-í-burtu-börn (aðrir hvali) og fá bréf og myndir frá þeim árum saman til að minna sig á að þeir séu að gera gott. Aðrir skrifa undir undirskriftalista gegn stríði og forwarda pólitískum tölvupóstum og svona, allt í góðri trú. En þetta skiptir mann samt ekkert öllu máli, maður þarf að halda áfram með sitt eigið líf.

En svo tekur náttúran allt í einu upp á því að derra sig. Allt í einu er það ekki stjórnmálamönnum og bólugröfnum ungmennum á skriðdrekum með vasadiskó í eyrunum (ungmennin, þá) að kenna að mörgþúsund manns þurrkast út og álíka margir eru slasaðir og alls lausir, bara á nokkrum mínútum. Það var bara jarðkringlan sem þurfti að teygja sig og sullaði óvart vatni upp á þurrlendið sitt í leiðinni. Engum að kenna, allir jafn miklir fórnarlömb. Vesturlandabúar opna bústnu buddurnar sínar og ausa úr þeim í hjálparsamtök. Og allir eru vinir, allir hjálpast að að reyna að laga það sem lagað verður.

Eða hvað?

Nei, því það eru akkúrat engin takmörk fyrir viðbjóðnum. Viðbjóðsperrar fara á stjá, áreita og/eða sanka að sér foreldralausum, heimilislausum, dauðskelkuðum og vönkuðum börnum og ýmist nauðga þeim eða selja öðrum, svo að þeir geti nauðgað þeim og/eða þrælað út í niðursuðuverksmiðjum eða hvar sem hentar. Þær mannskepnur sem ekki eru alveg jafn siðblindar og eru að reyna að safna krakkaskaranum saman í neyðarskýlum og hjúkra þeim og/eða hafa ofan af fyrir þeim þurfa allt í einu að gerast lífverðir þeirra líka og bægja burt fólki sem langar að vera vont við börnin.

Ókey, þetta er að gerast í dag. Núna. Á tímum mikilla framfara, við getum nefnt digital Ísland, ljósleiðarajólaskraut og heimabanka á netinu sem dæmi um þróunarstig menningarinnar...

Eitt af því sem við vitum er að margt vont hefur verið gert í gegnum tíðina. Sem dæmi má taka að er ekkert langt síðan fólk var að staðaldri brennt á báli og/eða hálshöggvið og svona fyrir hlægileg smáafbrot og almenningur var neyddur til að horfa á. Einu sinni horfði líka fólk stundum á annað fólk étið af ljónum, áhorfendunum til skemmtunar. Ojbjakk. En svo er okkur semsagt allt í einu bent á að óhugsandi grimmd sé að eiga sér stað núna líka. Og litlu heilabúin okkar ná utan um allar hugsanirnar sem það felur í sér að reyna að átta sig á þessu. Þannig að við fussum bara og sveium og förum að tala um veðrið, enda er óvenjukalt núna og margir núansar í veðurfarinu sem seint verða fullræddir. Svo eru líka jarðskjálftar við Grímsey.

Það er engin niðurstaða/lokaorð í þessu bloggi. Upphafið var bara svona tilfallandi, miðjan var svolítið lituð af viðbjóðstilfinningunni sem grípur mann og niðurstaðan er engin.

Hins vegar er rétt að benda á að það sem barnung fórnarlömb flóðbylgju eru að lenda í núna, hafa barnung fórnalömb stríða, jarðskjálfta, skógarelda og annarra hamfara án efa lent í áður, eru ef til vill að lenda í núna og munu lenda í síðar meir.
Er eitthvað við því að gera?

Getraun: Hvað eru mörg ,,og/eða" í þessu bloggi?


0 Comments:

Skrifa ummæli

<< Home