föstudagur, janúar 20, 2006

Ég er Trista í Bachelor, eða Bachelorette, eða eitthvað. Og þvílík kvöl og pína! Ég stend frammi fyrir fáránlegasta vandamáli ævi minnar. Á ekki orð til að lýsa absúrdleika eigin tilveru. Nema hvað. Ég er semsagt að plana eigið brúðkaup, ekki ein samt, það þarf sko tvo til. En hinn aðilinn á sennilega enn erfiðara með að komast yfir eigin brúðkaupsáformafóbíu en ég. Þannig að sem stendur eru veigamikil vandamál á mínum herðum og tilvonandi eiginmaður hummar karlmannlega þegar þetta ber á góma innan um aðra og lítur flóttalega í kringum sig. Hann er sko enginn Ryan. En þetta er samt ekkert mín hugmynd frekar en hans!

Nema hvað, á ég að fletta ofan af vandamálinu?
Nú, við erum með gestalista sem fer langt með að gera Egilshöll að smákofa. Viljið þið vita hvað ég er að tala um marga? Gerið svo vel - hlægið ykkur máttlaus yfir mínum smáborgaralega vandræðalegu vandræðum:

283 gestir.

Ha!
Er þetta ekki klikkun?
Við erum sko ekkert að taka með í reikninginn neina fjarskylda frænda eða frænkur, enga forna vinnufélaga eða barnaskólasystkin. Ó nei, þetta eru þeir sem við skilgreinum sem hardcore innsta kjarna.

126 á mínum lista.
157 á hans.

Ég sem vissi ekki einu sinni að ég þekkti svona marga.
Er nema von að ég upplifi mig og mitt líf sem eina stóra paródíu þessa dagana. Hvar á maður að koma 283 gestum fyrir? Og hvað á maður að gefa þeim að borða? Og hvar á maður að komast yfir þann auð sem þarf til að borga fyrir svona óráðssíu?

En sko. Löngum hef ég í laumi hneykslast og ranghvolft augunum yfir flottræfilshætti kunningja og annarra sem maður heyrir af sem lenda í því að vera með of marga á gestalistum. 200 manna gestalisti hefur mér fram til þessa þótt bera vott um helst til mikla þörf fyrir að vera „grand“. Og ógeðslega hallærislegir uppar í leiðinni. Svona týpískt hvítt hyski.
Nema hvað, alltaf þarf maður að fá allt í andlitið.

Upprunalega hugmyndin mín var svona: Allir saman í gúddí fílíng einhvers staðar úti í sveit, í gúmmístígvélum og lopapeysum eða flís með öl í hönd eða hugsanlega eitthvað hollara, hæfilega skítugir krakkaormar hlaupandi út um allt (þrátt fyrir eindregna skeptík af hálfu barnlausu vinkvenna minna (já og dyggustu blogglesenda ;)) sem litu undan og dreyptu á café lattenu sínu með vandlætingarsvip þegar ég minntist á draumóra mína um afslappaða nærveru barna), njótandi sveitasælunnar til hins ýtrasta. Kannski lifandi tónlist (ef ég gæti mútað einhverjum fátækum námsmönnum eða útlendingum sem vissu ekki betur). Allir glaðir og afslappaðir. Síðla nætur myndu allir fara að sofa, sumir myndu keyra heim, aðrir gista á staðnum. Svo myndu allir sem eftir væru snæða morgunmat saman daginn eftir og allt væri í lukkunnar velstandi.
En nei, þetta er kannski ekkert að fara að gerast. Andvarp.

Það er farið að virka freistandi að stinga af í heimsreisu bara við þrjú (já, af því að við lítum óvart ekki á dóttur okkar sem aðskotahlut heldur sem essencið í tilveru okkar).

Ókey – kann einhver lausn á heimskulegasta vandamáli í heimi?

(P.S. Varðandi brúðkaupsgjafir - matarmiða hjá Mæðrastyrksnefnd, takk)

0 Comments:

Skrifa ummæli

<< Home