mánudagur, júlí 30, 2007

Tvennt liggur Véfréttinni á hjarta eftir vægast sagt annasama helgi við flutninga sem engan endi ætla að taka. Þess má geta að fyrsta nóttin í nýju híbýlunum var ágæt, kannski helst til stutt, en ásættanleg að öðru leyti.

En Véfréttin vill annars hér taka með kinnroða til baka sínar dónalegu dylgjur um að viðskiptahættir HTH og Bræðranna Ormsson séu eitthvað annað en strangheiðarlegir. Gallinn reyndist leynast hjá Rönning sem hefur alls ekki staðið sig í þeim viðskiptum sem til var efnt, veitt rangar upplýsingar í tvígang, sýnt litla (ef einhverja) þjónustulund og verið stæla og leiðindi. Véfréttin bætir því Rönning hér með opinberlega á svarta listann og varar grandalausa lesendur við að stofna til viðskipta við það fyrirtæki. Svei.
Hins vegar, til að sólin fái nú líka að skína, langar Véfréttina að benda á ungan og upprennandi hönnuð sem á eftir að leggja tískuheiminn að fótum sér... smá sýnishorn:

laugardagur, júlí 28, 2007


Véfréttinni er orðið ómótt af efnishyggjunni sem hún hefur neyðst til að láta stjórna gjörðum sínum í allt of marga daga.


Nú eiga Véfréttin og spúsi aldeilis glæsilegan nýjan stálburstaðan ísskáp (sem því miður er 4 sentimetrum of djúpur til að passa inn í ísskápsgatið í innréttingunni, af því að Bræðurnir Ormsson og HTH-innréttingar eru með samsæri).


Einnig hafa þau eignast gljábónaða skærrauða ryksugu með hepa-síu, stórglæsilegar þvottavélar fyrir tau annars vegar og leirtau hins vegar og aldeilis nýtískulegan sturtuklefa sem eflaust verður þrautin þyngri að koma upp.


Allt þetta kostaði allt of marga peninga, ofan á gólfefnaútgjöldin. Eftir er að kaupa ljós, gardínur, rúmdýnur og alls konar fleira sem einnig kostar skildinginn.


Véfréttin hefur fram til þessa lifað einföldu lífi, keypt mikið notað og sömuleiðis notið góðs af innanstokksmunum sem aðrir fjölskyldumeðlimir hafa fengið leiða á. Þannig hefur Véfréttinni liðið ágætlega.


En eins og þeir sem vel hafa fylgst með vita hafa nú örlögin hagað því svo að Véfréttinni er ekki lengur stætt á því að kaupa notað og skyndilega hefur hún sogast inn í einhverja stálburstaða efnishyggjuhringiðu sem hún sér ekki út úr. Og í hvert skipti sem VISA-kortið er straujað stækkar efnishyggjuhnúturinn í maganum...

mánudagur, júlí 23, 2007

Véfréttin er svoddan endemis lúði stundum. Um helgina ætlaði hún að setja inn stutta færslu með link á góða færslu einhverrar ágætrar konu í hinum stóra bloggheimi. En vegna viðutanskapar fór það óvart inn á barnabloggið, sem var ekki ætlunin.

Tilraun tvö:

Veit ekkert um þá sem bloggar, en færslan er góð: Ónefnan

föstudagur, júlí 20, 2007

Véfréttin þarf upplýsingar!

Í fyrsta lagi: Hvar er vettvangur til að selja sófa, uppþvottavél, ísskáp og e.t.v. einhver fleiri húsgögn? Er ekki eitthvað á netinu? Var einhver að tala um barnaland? Hvað gerir maður? Hvað virkar best?

Í öðru lagi: Hvar er best að kaupa eftirfarandi á þessum árstíma (og hvenær byrja eiginlega útsölur á þessum munum?):

  • Ryksugu (verður að vera nett, létt og með svokallaðri HEPA-síu...)
  • Ísskáp (burstað stál, ekki okkar val - verktakinn batt hendur okkar...)
  • Uppþvottavél (líka burstað stál, úff)
  • Þvottavél
  • Sturtuklefa (botninn er til staðar, vantar klefa ofan á)
  • Skiptiborð

Það var eitthvað fleira, man ekki allt.

Véfréttin snýr sér semsagt til lesenda sinna og falast eftir ábendingum, núna strax helst!

Parkett hefur verið valið (eftir miiiiiiiklar pælingar) og lagning getur hafst á morgun ef vel gengur.

Véfréttin iðar í skinninu eftir að fá að deila með lesendum sínum ýmsu sem hún hefur orðið fróðari um parkett.

Til dæmis er til plastparkett, harðparkett (spónaplata með ljósmynd af parketti á, þakin með áloxíð húð), Pergo-parkett (tja, svona svipað og harðparkettið, nema að mestu úr trjákvoðu og með einhverju plasti í stað áloxíðs (hvað er annars áloxíð?)), korkparkett (viðarhimna með keramik-húð og 15 ára ábyrgð) og svo allar hugsanlegar gerðir gamaldags tréparketts.
Og fyrir ykkur sem ekki vitið, þá er það víst mýta að parkett þurfi mikla umönnun, viðhald og stúss, flest af þessu sem okkur var kynnt á ekki að þurfa neitt, enda er það rúsínan í pylsuendanum.

Það kemur kannski ekki á óvart að hin jarðbundna og náttúruelska Véfrétt og sveimandi eiginmaður hennar völdu sér gólfefni sem eitt sinn stóð úti í skógi. Eik, nánar tiltekið, enda eru eldhúsinnréttingar úr eik.

En já, nú bíður Véfréttin eftir svörum, símleiðis, kommentaleiðis eða bara augliti til auglits, varðandi kaup og sölu á ofangreindum húsmunum.miðvikudagur, júlí 18, 2007

Véfréttin og Sveimhuginn fá (væntanlega) afhent á... morgun! Vegna einhverra tafa hjá fasteignasölunni var ekki afhent í dag, en hjónin, sem verða brátt nágrannar Bachelor-stjörnu, fengu samt að líta inn og spá í parketprufum.

Eins og gefur að skilja er létt yfir hjónakornunum í dag, þó ekki jafn létt og vonandi á morgun.

En Véfréttina langar líka að tjá sig aðeins um auðkennislyklana:

Múhahahahahaha! Þið hafið öll verið höfð að fíflum (Véfréttin líka, tæknilega séð).

föstudagur, júlí 06, 2007

Leitinni er lokið!

Hér gefur á að líta blokkina sem varð fyrir valinu. Á komandi árum verður hægt að heimsækja Véfréttina, Sveimhugann og börnin þeirra í íbúð 0106, sem á uppdrættinum hér að neðan er lengst til vinstri:
Allir velkomnir í heimsókn. Afhending er 18. júlí og þá tekur við strembin parketlagningarlota áður en flutt verður inn. Ef einhvern langar að spreyta sig á parketlagningum þá er bara um að gera að gefa sig fram - allar umsóknir verða vegnar og metnar með tilliti til aldurs og fyrri starfa... já eða satt að segja verður öll hjálp afar vel þegin!

Nú förum við í bústað. Allir velkomnir þangað líka, sem fyrr segir.

miðvikudagur, júlí 04, 2007

Véfréttin hefur misst töluna á því hve margar húseignir hafa verið skoðaðar.

Hér eru þó nokkrar sem nýlega hafa verið heimsóttar, sumar oftar en einu sinni - já og oftar en tvisvar:

Látrasel
Strandvegur
Sóleyjarhlíð
Ásland
Flúðasel
Grandahvarf
Akurhvarf
Hamratangi
Rauðamýri

... og spennan magnast...

Véfrétt og familía fara annars í sumarbústað um helgina - alveg fram að næstu helgi. Allir eru velkomnir í heimsókn og grill og gistingu og pottinn og allt það.

Vei, sumarfrí!

mánudagur, júlí 02, 2007

Véfréttin er örvinluð. 4 vikur og 6 dagar í áætlaðan fæðingardag, 1 mánuður og 28 dagar liðnir frá skiladegi lokaverkefnis (sem enn er ekki lokið) og engin lausn í sjónmáli varðandi húsnæði.

Véfréttin og Sveimhuginn eru búin að vera að spreða tilboðum í allar áttir en viðbrögð hafa verið með dræmara móti. Nokkurra daga hlé hefur verið gert á íbúðaskoðunum en þeim mun fleiri bíltúrar hafa verið farnir að kvöldlagi til að kanna áður lítt þekkt búsetusvæði.

Skemmst er frá því að segja að svæði sem voru beinlínis úti í frostinu áður en húsleitin hófst hafa nú hlýnað verulega. Uppsveitir Kópavogs koma þar einkum sterkar inn.

Kannski bara eitt svona?